Lúsin

Mamma, sagði hann í símann. Mamma, og var mikið niðri fyrir. Hún stóð fyrir utan Nýherja í Borgartúninu. Nýkomin af fundi um kaup á fartölvum fyrir skrifstofuna. Bara nokkuð ánægð með sig. Ein í hópi karlanna. Ein í heimi karlkynsins sem virtist einoka þessa starfsgrein. Og sonurinn var í símanum. Unglingurinn hennar. Þar sem hún stóð með nýja snjallsímann. Á leiðinni í bílinn með skjalatöskuna í hinni hendinni. 

Mamma, sagði hann óþolinmóður. Hún var sein til svars. Ekki komin niður á jörðina. Enn að óska sjálfri sér til hamingju með dílinn. Hvað henni tókst vel upp í samningum við tölvukarlana. Henni var ekki fisjað saman. 

Mamma, Lína var að greiða Rúnu og það kom eitthvað lifandi í vaskinn. Datt í vaskinn þegar hún var að flétta hana, sagði hann gegnum skarkala og læti. 

Heimilið virtist allt í uppnámi. Þau voru ekki að standa sig með þessa krakka fannst henni. Endalaust samviskubitið nartaði í eyrnasneplana. Bæði í svefni og vöku. Þessi nagandi tilfinning við eyrað. Þau unnu alltof mikið. Voru aldrei heima. Og í ofanálag fór alltof mikil orka í að reyna að kæfa samviskubitið. Og það er líka í hárinu á henni. Ekki bara í vaskinum. Hélt hann áfram. 

Nú klæjaði hana sjálfa í hárssvörðinn. Klæjaði óheyrilega. Getur verið að hún sé sjálf með lús? Ekki bara stelpan. Lúsastelpan. Lúsamamman. Lúsafjölskyldan í Fossvoginum. Gat ekki að sér gert að sjá spaugilega hlið á öllu saman. Hló með sjálfri sér og skyldi ekkert í sér. Málið ekkert til að grínast með. 

Vinnudeginum var loks lokið. Og þá tók ekki betra við. Hún gat ekki hugsað sér að fara beint heim í lúsina. Ætlaði að láta eiginmanninn verða fyrri til. Langaði mest að fá sér í glas og gleyma öllu. Vera laus og liðug. En hún tók sér tak. Fór til mömmu sinnar. Vildi vera alveg viss um að hann tæklaði lúsina. Og þær hlógu í eldhúsinu. Hún móðursýkislegum hlátri. Klóraði sér í hausnum og hló. Mamma hennar hafði reynslu af lús. Var oft með lús í gamla daga. Allir með lús þegar hún var í skóla. Og alla daga verið að lúsakemba. Og hún skellihló að dóttur sinni. Loksins fengi hún að kynnast lúsinni. Þessu skemmtilega sníkjudýri. Eða hitt þó heldur. Ljóta vesenið. Þær kláruðu úr bollunum og þær hlógu báðar. Þau sem voru á leiðinni í afmæli til tengdó í kvöld með krakkana. 

Henni var víst ekki til setunnar boðið. Líklega nóg að gera heima við lúsaþvott og allt hitt sem fylgdi svona óværu. Bara draumur að hún slyppi. Óraunhæf óskhyggja eins og svo oft. Best að láta hendur standa fram úr ermum. Ekkert annað í boði. Kemba hár og lúsaþvo. Taka af rúmunum. Koma tuskudýrunum í frysti og úlpunum og húfunum sem mögulega væri hægt að troða þar líka. Snilldarhugmynd fannst henni. Hún ætlaði að goggla þetta til að vera viss um að lýs þyldu ekki frost. Hún var svo sniðug. Hafði hún kannski heyrt þetta einhvers staðar. Tengdó gæti mögulega séð af plássi í frystinum hjá sér. Og öll fötin sem þyrfti að þvo. Og púðarnir. Og sófarnir. Hvað átti eiginlega að ganga langt? Hún var við það að fara á límingunum. 

Dagurinn hafði verið endalausar áskoranir. Allt svo krefjandi. Full dagskrá nú þegar allir voru mættir eftir sumarfrí. Og svo þessi lús. Það var ekki á stressið bætandi. Álagið oftast að kaffæra hana. Og heima beið nú geðveikrahæli. Húsið troðfullt af fólki. Fullt af aukahausum. Í hausnum á henni algjört stjórnleysi. Eintómt kaos. Hún reyndi að halda fókus. Og lýsnar sem skriðu um í hárinu. Vonandi bara hugarburður. Og hún skellti uppúr. Taugaveikluðum hlátri. 

Það var miðvikudagur og Lína að passa. Miðvikudagur alltaf pössunardagur fyrir börn nágrannanna. Línu sem þótti svo gaman að börnum og var barnapía tvíburanna. Og nú voru þau þarna með henni. Þessi smábörn úr næsta húsi. Allt í barnadóti um allt. Og það þyrmdi yfir hana. Hún æpti á liðið. Farðu með krakkana heim til sín í guðanna bænum. Vonandi voru þau ekki líka með lús. Hún velti fyrir sér málshættinum sem hún fékk í páskaegginu. Frestur er á öllu bestur. Þvílík endemis þvæla. Hún gat ekki ímyndað sér að þetta ætti nokkurn tímann við. Nú þurfti að láta til skarar skríða. Illu er best aflokið sagði hún við sjálfa sig en mest langaði hana að skríða undir sófa. 

Hvar var pabbi þeirra eiginlega? Sá sem átti að hleypa lúsaáætluninni af stokkunum. Hún hafði treyst á hann. Mátti svo sem að vita betur. Lenti ekki alltaf allt á henni á þessu heimili. Bæði stórt og smátt. Hann er í apótekinu, sögðu krakkarnir. Alltaf tilbúin að taka upp hanskann fyrir hann. Hann var að kaupa nauðsynlegar græjur og þarna birtist hann. Búinn að kaupa lúsasjampó og lúsakamba. Og með samstilltu átaki tóku þau til óspilltra málanna. 

Hausinn á Rúnu litlu var ein nit. Þessir silfurlitu litlu hnúðar sem voru egg lúsarinnar um allt í fallegu dökku hárinu. Nit hreint út um allt en mest næst hörundinu. Aldrei í lífinu hefði hún ímyndað sér að þetta væri hægt.. Heill músaher í hausnum á Rúnu. Eins og örsmátt listaverk þessar litlu ljósu kúlur. Hausinn á Rúnu hafði öðlast sjálfstætt líf. Heilt vistkerfi. Lítill alheimur út af fyrir sig. 

Þau hlutu öll að vera morandi. Hvaðan var þetta eiginlega komið. Hún sem var svo hreinleg alltaf. Ofurhreinleg. Kannski kom lúsin úr skólanum. Allar húfurnar á snögunum. Liggjandi saman og úlpurnar. Bauð bara hættunni heim. Og hún hryllti sig. Sundlaugin. Tónlistarskólinn. Og svo var það Majorka ferðin fyrir um mánuði. Var Spánn sökudólgurinn? Spánarlús. Örugglega frá rómakonunni sem fléttaði stelpurnar. Fléttaði hárið svo fallegum örfínum fléttum. Konan með sítt þrifalegt hár. Glansandi og dökkt. Þétt upp við litlu kollana hennar. Hár stelpnanna. Var ekki einmitt varað við þessum konum. Engin sjáanleg lús allavega. Og nú heill mánuður liðinn. Heill mánuður sem þær höfðu haft til að athafna sig. Frjálsar eins og fuglinn óáreittar í hárinu hennar Rúnu. Og kannski þeirra hinna líka. Aftur fékk hún gæsahúð. 

Og hún kembdi hárið hennar Rúnu. Fór nákvæmum reglulegum strokum um það. Ekkert hár útundan. Lyfti kambinum aftur og aftur. Strauk af umhyggju þetta fallega hár. Var til nokkuð yndislegra. Og lýsnar flutu um í vatninu í vaskinum. Svartar lýs. Nokkrar ljósari. Og kamburinn fylltist af hvítum litlum hnúðum. Lúsanit. Lúsaegg. Engin leið að ná þeim öllum úr hárinu. Fullt eftir af þessari óværu. Og lúsasjampóið. Gat ekki verið hollt þetta eitur. 

Lína sór þess eið að engin lús væri í sínu hári. Alls engin lús í þunna ljósa hárinu hennar. Englahárinu. Það gæti bara ekki verið. En þær voru þar. Fullt af þeim en færri en hjá Rúnu. Og líka nit í þunna veiklulega hárinu hennar Línu. Ljóta ógeðið. 

Svo var það hún sjálf með sítt svart hárið. Hún hélt niðri í sér andanum. Svo datt ein niður í vaskinn. Og svo önnur. Þegar hún hafði kempt hárið voru þær þarna fimm. Hrollur fór um hana. Fimm spriklandi lýs í vaskinum. Henni fannst hún óhrein. Eins og hún hefði orðið fyrir árás. Fékk dúndrandi hjartslátt. Skammaðist sín fyrir þessi ýktu viðbrögð. Og það var eitthvað smávegis eftir af sjampói fyrir hana. Það var eins gott. Hún hefði ekki lifað af að fara í rúmið svona. Og um allan líkamann gæsahúðin komin til að vera. 

Unglingurinn slapp. Lagði mikið á sig að vera sem lengst frá systrum sínum. Heppinn stóri bróðirinn. Ungi karlmaðurinn sonur hennar þoldi ekki þessar smástelpur. Það var þá eitthvað á því að græða eftir allt saman. 

Og auðvitað var maðurinn hennar alveg lúsalaus. Hvað annað. Hafði ekkert klæjað uppástóð hann núna. Einmitt. Enda engar kjöraðstæður í hausnum á honum. Svo til engin hár til að verpa í. Eyðimörkin hans. Þetta ótímabæra hárleysi. Hún varð eiginlega bara fúl út í hann. Grautfúl. Rúna hló og sagði að þessi krútt vildu mikið hár. Vildu bara fullt af hári. 

Þvotturinn. Allt sem hún ætlaði að frysta. Ekkert lítil vinna allt saman. Hún lokaði að sér inni á klósetti og grét. Lagðist bara niður og grenjaði. Eina hugsun hennar núna rúmið að loknum þessum langa degi sem hafði þó byrjað ljómandi vel. Hún vissi að hún var auðvitað ekki í lagi. Hver lét nokkrar lýs setja sig svona út af laginu. 

Rúna sagði frá lúsinni sinni um kvöldið hjá ömmu og afa. Þessum herskara lúsa eins og hún væri hetja. Stórafrek að vera skapari alls þessa lífs. Að skapa þeim aðstæður til að lifa og fjölga sér. Kraftaverk í hárinu hennar. Var hreykin af öllum þessum smádýrum. Detta mér allar dauðar lýs úr höfði, sagði afi og skellihló að Rúnu. Bæði hann og amma höfðu sínar lúsasögur og litla afmælisboð kvöldsins varð undirlagt af lús. Og henni tókst loks að slaka á. Tókst að hafa gaman af lúsasögum. 

Þungu fargi var af henni létt yfir jákvæðu viðhorfi Rúnu til lúsarinnar. Mikil heppni að stelpan tók þessu svona vel. Fallega síða hárið hennar þurfti að fjúka. Og svo tóku við nokkrar vikur í að uppræta þetta ógeð. Virtist í fyrstu engan enda ætla að taka þetta lúsastríð. Hárþvottur og kambur daglegt brauð á þriðju viku. Tilfinningar hennar voru allar aðrar en Rúnu. Hún var full viðbjóðs. Fékk reglulega hroll með tilheyrandi gæsahúð. Og hélt áfram að klóra sér löngu eftir að allar lýs voru týndar og tröllum gefnar. Sama með Línu. Hún hélt þessu fyrir sig. Skammaðist sín ógurlega. Sóðastelpa. Sóðaheimili. Stórglæpur. Fór með lýsnar sínar eins og mannsmorð. 

En Rúna hélt uppteknum hætti. Gat endalaust glaðst yfir þessum ófögnuði. Eins og draumurinn um gæludýr hefði loksins ræst. Sagði öllum sem heyra vildu frá lúsakrúttunum sínum. Spænsku lúsunum. Heilum herskara lúsa sem hafði lifað í hárinu á höfðinu á henni. Lúsunum sem hún kom með heim frá Spáni og höfðu nærst á hennar eigin blóði.

Og auðvitað var maðurinn hennar alveg lúsalaus. Hvað annað. Hafði ekkert klæjað uppástóð hann núna. Einmitt. Enda engar kjöraðstæður í hausnum á honum. Svo til engin hár til að verpa í. Loksins var eitthvað gagn að hárleysinu. Eyðimörkinni hans. Þessu ótímabæra hárleysi sem þakkti hausinn. Hún varð eiginlega bara fúl út í hann. Grautfúl. Og Rúna hló og sagði að þessi krútt vildu mikið hár. Vildu bara fullt af hári. 

Og svo voru það þvottarnir. Taka af rúmunum. Og allt sem hún ætlaði að frysta. Ekkert lítil vinna allt saman. Og hún lokaði að sér inni á klósetti og grét. Lagðist bara niður og grenjaði. Eina hugsun hennar núna rúmið að loknum þessum langa degi sem hafði þó byrjað svo ljómandi vel. Og hún vissi að hún var auðvitað ekki í lagi. Hver lét nokkrar lýs setja sig svona út af laginu. 

Og Rúna sagði frá lúsinni sinni um kvöldið hjá ömmu og afa. Sagði frá lúsunum sínum. Þessum herskara lúsa eins og hún væri hetja. Stórafrek að vera skapari alls þessa lífs. Að skapa þeim aðstæður til að lifa og fjölga sér. Kraftaverk í hárinu hennar. Var hreykin af öllum þessum smádýrum. Detta mér allar dauðar lýs úr höfði sagði afi og skellihló að Rúnu. Bæði hann og amma höfðu sínar lúsasögur og litla afmælisboð kvöldsins varð undirlagt af lús. Og henni tókst loks að slaka á. Tókst að hafa gaman af lúsasögum. 

Þungu fargi var af henni létt yfir jákvæðu viðhorfi Rúnu til lúsarinnar. Mikil heppni að stelpan tók þessu svona vel. Fallega síða hárið hennar hafði orðið að fjúka. Og svo tóku við nokkrar vikur í að uppræta þetta ógeð. Virtist í fyrstu engan enda ætla að taka þetta lúsastríð. Hárþvottar og kembingar daglegt brauð á þriðju viku. Tilfinningar hennar voru allar aðrar en Rúnu. Hún var full viðbjóðs. Fékk reglulega hroll með tilheyrandi gæsahúð. Og hélt áfram að klóra sér löngu eftir að allar lýs voru týndar og tröllum gefnar. Sama með Línu. Hún hélt þessu fyrir sig. Skammaðist sín ógurlega. Sóða stelpa. Sóða heimili. Stórglæpur. Fór með lýsnar sínar eins og mannsmorð. 

En Rúna hélt uppteknum hætti. Gat endalaust glaðst yfir þessum ófögnuði. Eins og að draumurinn um gæludýr hefði loksins ræst. Sagði öllum sem heyra vildu frá lúsakrúttunum sínum. Spænsku lúsunum. Heilum herskara lúsa sem hafði lifað í hárinu á höfðinu á henni. Lúsunum sem hún kom með heim frá Spáni og höfðu nærst á hennar eigin blóði.

Kristín Runólfsdóttir