Höndin nálgaðist glasið og fingurnir hófu að gæla við fót þess. „Ætlar hann virkilega? Ætlar hann að eyðileggja þetta fyrir þeim?“ hugsaði gesturinn sem þekkti hann vel og vissi að það gat vel gerst. Hann hafði gert það áður en kannski myndi hann hemja sig í brúðkaupi sonar síns.
Unga parið, stúlkan í fallegum stuttum hvítum kjól og hann í jakkafötum með skyrtuna fráhneppta í hálsinn. Þau höfðu valið sér lag, lagið þeirra, og stigu nú dansinn ein á dansgólfinu. Það var greinilegt að hún stjórnaði dansinum því hún ýtti nýbökuðum eiginmanni sínum í réttar áttir bæði með höndunum og líkama sínum. Systir hennar stóð upp eftir nokkur dansspor og kallaði yfir allt: „Nú mega foreldrar brúðhjónanna koma inn á dansgólfið.“ Höndin, þar sem vísifingur og þumall fitluðu enn við barmafullt glasið, lyftist. Hann stóð á fætur. Hann setti höndina á öxl konu sinnar, sem var í áberandi flegnum kjól, og togaði hana út á dansgólfið. Þar sveiflaði hann henni í hring og ýtti á eftir með því að skella hendinni á afturenda hennar. Hún hringsnerist en var greinilega brugðið. Brosti þó sínu breiðasta, sparkaði af sér skónum og kastaði þeim út í horn áður en hún hóf dansinn með því að breiða faðminn á móti honum.
Hinir foreldrarnir, sem voru eldri, stóðu einnig upp þó að maðurinn gæti varla gengið. Hann var greinilega slæmur í hné. Þau fóru sér hægt þar sem hann tók utan um konuna sína og vaggaði sér rólega til hliðar á meðan konan, sem greinilega kunni að dansa enskan vals, tók sporin.
En hann var í brúðkaupi sonar síns og fór mikinn. Eftir að hafa snúið konunni sinni og hún orðin skólaus greip hann um mitti hennar og stikaði stórum. Konan greinilega vön þessum danstilburðum og fylgdi með. Þau nálguðust með bægslagangi brúðhjónin sem þá stundina voru stödd í einu horni dansgólfsins. Þegar þangað kom lánaðist honum að slengja konu sinni þannig utan í ungu brúðina að hún féll á gólfið. Hann sleppti konunni sinni og greip í brúðina með báðum höndum. Systirin stóð þá aftur upp og hrópaði: „Nú mega ALLIR dansa.“
Það glitti í tár á vanga ungu brúðarinnar sem hugsaði með sér. Var hún að gera rétt? Tengdafaðir hennar var stundum skemmtilegur, ræðan til þeirra stórkostleg og hann var enn edrú. Nú hafði hann skellt henni í gólfið og hún var hrædd um að hann myndi á einhvern hátt reyna að bæta fyrir það, gera eitthvað sem var allt of mikið, bara eitthvað. Hann hafði til dæmis gefið þeim bíl eftir að hann æddi inn á þau þar sem þau létu vel hvort að öðru. Þá hafði hún öskrað, grátið og sagt að hann mætti ekki bara vaða inn á þau eins og hann ætti allt og alla. Hún leit upp til eiginmanns síns sem hún elskaði. Hann var ekki eins pabbi sinn og hann gerði allt sem hún bað um. Hún vissi að honum þótti sopinn góður en hann hafði til þessa alltaf hætt þegar hún bað um það og kvíðinn því óþarfur. Líf þeirra gat ekki orðið eins og það sem hún varð vitni að hjá tengdaforeldrum sínum. Hún var nú gengin þrjá mánuði á leið og hann hafði lofað að barnið þeirra þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af drykkju.
Dansinn hélt áfram. Hann hélt áfram að hendast á milli horna dansgólfsins og konan hans fylgdi með. Hann var ódrukkinn en mesti gleðipinninn í partíinu. Unga fólkið, vinir brúðhjónanna, færðu sig en brostu þegar hjónin nálguðust þau á dansgólfinu.
Gömlu hjónin höfðu fært sig upp að vegg, héldu hvort utan um annað og horfðu döprum augum á dóttur sína þar sem þau hreyfðu sig hægt í takti við tónlistina.
Síðustu tónar lagsins þeirra ómuðu um salinn og brúðhjónin kysstust þegar brúðkaupsgestirnir slógu teskeiðum í glös.
Anna Sigurðardóttir