Litli stóri maðurinn

Hún hitti krakkana á föstudagskvöldið. Þau hittust úti í sjoppu og voru flest að drekka Spur. Hún fékk einn sopa hjá Helgu en afþakkaði síðan fleiri því hún kunni ekki við að drekka meira frá öðrum. Þau fóru út á róló, sátu í rólunum og töluðu saman. 

„Það er komin mynd í bíó sem heitir Little Big Man og er alveg ferleg um Indíána og það er líka sýnt að þau eru að gera hitt,“ sagði Helga.

„Ha, eigum við að fara saman á sunnudaginn,“ spurði Sigga.

„En, hún er bönnuð innan sextán,“ svaraði Helga.

Þau sátu áfram og fleiri krakkar komu frá húsunum í kring. Siggi og Maggi komu og þeim var sagt frá myndinni sem var bönnuð.

 „Ég veit,“ sagði Siggi. „Frændi minn vinnur í miðasölunni í Austurbæjarbíói og hann tekur líka miðana við innganginn. Ég hef oft fengið að fara á bannaðar myndir, hann tekur bara tíkall fyrir og segir hvenær á að mæta, stundum koma svo fáir. Við gætum alveg prófað að athuga hvort við getum farið á sunnudaginn. Hverjir vilja koma með?“

Hún hugsaði um sjötíu krónurnar sem hún átti heima, miðinn kostaði hundrað og tuttugu og svo þessi tíkall sem þurfti að borga aukalega til að komast inn. Hún horfði á krakkana sem hvert af öðru réttu upp höndina til staðfestingar á því að þau ætluðu með á bíó. Þau voru fimm. Þau horfðu öll í áttina að henni og áður en hún hafði alveg áttað sig rétti hún líka upp höndina.

„Allt í lagi, þá erum við sex. Ég skal tala við frænda minn,“ sagði Siggi.

Hún sem hafði verið að reyna að safna fyrir fermingarkápu. En kápa var mjög dýr, kostaði yfir þúsund krónur, svo þetta var eiginlega alveg vonlaust. Hún hafði heyrt mömmu öskra á pabba í gærkvöldi og kalla hann aumingja, vonlausan hálfvita og lítilmenni. Hann hafði fengið launaseðil og í reitnum útborguð laun stóð eitt núll. Pabbi reyndi að verja sig og sagði að þetta væri vegna þess að hann hafði þénað svo mikið árið áður, þegar þau voru að kaupa íbúðina. Mamma öskraði bara áfram og sagði pabba bæði heimskan og vitlausan. Hún sagðist skúra tvær skrifstofur og síðan öskraði hún meira og spurði hvort hún ætti ekki líka bara að fara að selja sig svo að hann yrði ánægður. Nei, hún myndi örugglega ekki fá kápu fyrir fermingardaginn. Það var vont þegar mamma var reið.

Hún gekk af stað, í burtu frá krökkunum. Vonaði að mamma væri ekki komin heim og hún gæti bara farið strax upp í rúm og þóst vera sofandi þegar hún kæmi. Á leiðinni gekk hún fram hjá sjoppunni og sá auglýsingu í glugganum. Barnfóstra óskast til að gæta tveggja barna að kvöldlagi, góð laun í boði fyrir ábyrga unglingsstúlku. Henni fannst þetta eins og  fyrirboði um að hún ætti að fara í bíóið. Þetta var ekki erfið vinna, hún þurfti bara að vera þarna að passa krakka. Það var auðvelt að muna símanúmerið sem stóð á auglýsingunni, bara fjórir stafir. 

Konan sem svaraði í símann hrópaði nánast af fögnuði og sagði að þau væru einmitt að reyna að komast á ball á Hótel Sögu núna á laugardagskvöldið. Hún myndi borga tvö hundruð krónur fyrir pössunina því þau ætluðu að vera fram yfir miðnætti, svona einu sinni. Konan spurði ekkert um hana sjálfa, virtist bara himinlifandi yfir því að komast á ball. 

Risíbúðin við Efstastund fyllti vit hennar af viðurstyggilegri lykt af hárspreyi og sígarettum. Konan sem tók á móti henni með sígarettu í annarri hendinni og hárspreybrúsa í hinni var með uppsett hárið í háan vöndul sem þurfti greinilega mikið sprey til að haldast á sínum stað. Hún var í stuttum, gulum kjól. 

„Komdu inn,“ sagði konan með hárvöndulinn. „Krakkarnir eru komnir í rúmið og við erum alveg að fara, þú getur lesið fyrir þau eina bók, þá sofna þau örugglega.“ 

„Er hún komin,“ var kallað innan úr íbúðinni. Hún sá hávaxinn mann í hvítri skyrtu með svart bindi koma fram á ganginn þar sem hún stóð. Hann var í svörtum buxum og támjóum skóm. Hún hafði ekki áður séð svona stóran mann. Hann hélt á hálffullu glasi af brúnum vökva sem hann skellti í sig um leið og hann horfði niður til hennar. „Ég hringi þá á leigubíl,“ sagði hann og hélt áfram að stara á hana.

Hún fór inn í herbergi til barnanna. Þau voru tvö og lágu hvort í sinni kojunni. Þau virtust á svipuðum aldri, stelpa og strákur, kannski þriggja og fjögurra ára. Bók lá á gólfinu. Krakkarnir steinþögðu þegar hún spurði hvort hún ætti að lesa bókina. H settist á stól og passaði að þau sæju myndirnar í bókinni um leið og hún las. Hún heyrði skellinn í útihurðinni þegar foreldrarnir fóru. Hún las bókina tvisvar en sat síðan á stólnum og horfði út í loftið. Börnin þögðu og hvorugt þeirra hreyfði sig. Eftir svolitla stund voru þau bæði sofnuð og hún læddist inn í stofu. Á stofuborðinu stóðu tóm glös og þar var yfirfullur illa lyktandi öskubakki. Hún settist í sófann. 

Hávaðinn þegar einhver gekk upp stigann vakti hana. Stóri maðurinn í dyragættinnu starði á hana. Hún settist upp. Hann gekk að henni óstyrkum skrefum og settist við hlið hennar. Hún fann fýluna, bæði sígarettulykt og brennivínslykt. Hann settist alveg upp við hana. Hún reyndi að standa upp en hann setti handlegginn yfir fætur hennar og hélt henni fastri. „Mikið ertu sæt stelpa,“ sagði hann og setti hinn handlegginn fyrir aftan hana svo að hún gat ekki hreyft sig. Hann kyssti hana fyrst á ennið svo fannst henni hann sleikja á sér eyrað. Hvar er konan, hugsaði hún. Hann kyssti hana á munninn og reyndi að troða tungunni upp í hana. Það eina sem hún gat gert var að kreista saman varirnar og bíta tönnunum fast saman. Þá strauk hann yfir brjóstið á henni og færði síðan höndina niður á hnéð og strauk upp eftir lærinu. Hún þorði ekki að öskra. 

Þá heyrðist, loksins, fótatak í stiganum. „Djöfull eru þeir dýrir þessir andskotans leigubílar,“ sagði konan og kom inn í stofuna. Stóri maðurinn stóð upp og þau hjónin horfðust í augu. Hún sat áfram í horninu á sófanum og þorði ekki að hreyfa sig. Það var þögn í stofunni. Konan horfði á stóra manninn og sagði: „Þú er lítilmenni, helvítið þitt, láttu stelpuna fá tvö hundruð og drullaðu þér í bælið.“

Hún flýtti sér út. Á leiðinni heim settist hún í rólu á leikvellinum þar sem hún hafði skömmu áður verið með krökkunum. Það var enginn á ferli. Hún lyktaði illa, var óhrein. Hún fann enn lófatak stóra mannsins á vinstra brjóstinu og hrollinn þegar hann renndi fingrunum upp eftir lærinu á henni. Tvö hundruð krónurnar lágu eins og grjóthnullungar í buxnavasa hennar.

Hana langaði ekki lengur í bíóið með krökkunum.

Anna Sigurðardóttir